Gæludýrin skipa stóran sess í hjarta okkar og flestir gæludýraeigendur eiga það sameiginlegt að kvíða þeim tíma þegar þeir neyðast til að kveðja dýrið sitt til margra ára. Þetta er eitthvað sem flestir þurfa að ganga í gegnum þar sem dýrin lifa því miður ekki jafn lengi og við mennirnir. Ef dýrin eru orðin veik eða gömul er mannúðlegt að leyfa þeim að sofna svefninum langa.
Heima eða á dýraspítalanum?
Flestir dýraspítalar bjóða upp á heimavitjun. Þá kemur dýralæknirinn heim til ykkar og aflífar dýrið þar. Heimavitjun er oft betri kostur ef dýrið er hrætt eða mjög veikt þar sem það er minna álag. Heimavitjun er einnig góður kostur fyrir þá sem eiga önnur gæludýr þar sem það getur hjálpað hinum dýrunum að fylgjast með aflífuninni. Mörg dýr verða óróleg og kvíðin ef vinur þeirra fer og kemur aldrei aftur. Dýrin skilja þetta ferli undarlega vel. Hinn möguleikinn er að fara með dýrið á dýraspítalann. Sumum finnst betra að fara á hlutlausan stað til að tengja heimilið sitt ekki við erfiðar stundir.
Hverjir verða viðstaddir?
Það er misjafnt hvort fólk vilji vera viðstatt þegar gæludýr þess er aflífað. Það er allt í lagi að vera með og það er líka allt í lagi að treysta sér ekki til þess. Það er enginn ákveðinn aldur sem hægt er að miða við fyrir börn þar sem andlegur þroski þeirra er misjafnt. Foreldrar og börn þurfa oft að taka þessa ákvörðun í sameiningu. Eins og fyrr segir getur verið gott fyrir hin gæludýrin á heimilinu að vera viðstödd.
Hjá okkur á Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti gildir sú regla að engin dýr eru ein þegar þau deyja svo þegar eigendur treysta sér ekki til að vera viðstaddir er alltaf einhver á svæðinu sem er hjá dýrinu og strýkur því þar til dýrið er farið. Það þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að enginn sé hjá dýrinu síðustu mínúturnar.
Aflífunin
Þegar um hund eða kött er að ræða er dýrið fyrst sprautað með róandi efni sem deyfir dýrið niður og lætur það sofna. Það er misjafnt hvað sprautan tekur langan tíma að virka. Ef dýrin eru mjög lasin getur þetta tekið mjög stuttan tíma (hálfa til eina mínútu) á meðan önnur dýr geta verið allt að 10 mínútur að sofna. Þetta er algjörlega sársaukalaust og dýrið sofnar rólega. Það slaknar smám saman á líkamanum. Þegar dýrið er sofnað er önnur sprauta gefin. Það er sprautan sem stoppar hjartað. Þessari sprautu er yfirleitt sprautað beint í hjartað hjá kisum en hjá hundum er yfirleitt settur upp æðaleggur í framfót og báðum sprautum sprautað í gegnum hann. Dýrin finna ekki fyrir þessu vegna þess að það var þegar búið að deyfa þau alveg niður. Sum dýr taka andköf eða fá krampa eftir seinni sprautuna. Það er eðlilegt og dýrin finna ekki fyrir því. Það getur hins vegar verið erfitt fyrir eigendur að horfa upp á þetta og því velja margir að fara afsíðis á meðan seinni sprautan er gefin. Hjartað stoppar strax og dýrin finna ekki fyrir óþægindum. Þegar dýralæknir hefur gefið seinni sprautuna hlustar hann eftir hjartslætti og tryggir þannig að dýrið sé dáið.
Þegar dýr eru aflífuð lokast augun ekki og munnurinn getur opnast örlítið. Þau stífna svo upp á um 30-60 mínútum. Það er eðlilegt að dýr missi þvag eða hægðir eftir að þau sofna. Þess vegna er gott að hafa teppi eða lak undir dýrinu.
Hvað svo?
Þegar búið er að aflífa dýrið eru þrír valmöguleikar; sambrennsla, sérbrennsla eða að jarða dýrið. Sambrennsla er það þegar dýrið er brennt með fleiri dýrum. Þá færðu öskuna ekki til baka. Þetta er nokkuð ódýr lausn. Hjá hundum fer verðið eftir þyngd en hjá kisum og smádýrum er yfirleitt eitt fast verð. Þetta er gert gegnum dýraspítala. Sérbrennsla er það þegar dýrið er sett í einkabrennslu. Þá færðu öskuna til baka í fallegri öskju. Við höfum samband símleiðis þegar askan er tilbúin. Verðið fer eftir þyngd dýrsins. Þetta er gert gegnum dýraspítala. Að jarða dýrið er það þegar þú vilt sjálf/ur finna stað og jarða dýrið. Það er hægt að jarða dýr í Gæludýragrafreitnum að Hurðarbaki við Laxá í Kjós. Þar þarf að greiða árlegt gjald. Það er einnig hægt að jarða dýrið á einkareit en hafið það í huga að margir þurfa að flytja eða selja jarðir sínar og þá getur verið erfitt að skilja besta vininn eftir.
Til minningar
Margir smíða krossa til að hafa við leiði dýranna sinna. Þá er hægt að setja nafn dýrsins á krossinn til minningar. Það er einnig hægt að nota steina og láta grafa nafn gæludýrsins á hann. Oft er hægt að fá sérstaka gæludýralegsteina á þeim stöðum sem búa til legsteina fyrir fólk.
Hjá Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti bjóðum við upp á að útbúa loppuför. Það gerum við bæði með því að stimpla með bleki á pappír en einnig erum við með sérstök sandbox sem búa til falleg loppuför og með því fylgir myndarammi.
Ef þú vilt ræða þetta ferli betur eða meta hvort kominn sé tími fyrir dýrið þitt geturðu hringt í okkur í síma 544-4544 eða sent okkur tölvupóst á [email protected].